Þessi síða hefur að geyma skýrslur um skógræktartilraunir og friðun kjarrskóga hér á landi á árunum 1899–1907.
Að tilraununum stóðu danskir menn, og fékk verkefnið fljótlega nafnið Islands Skovsag. Hér á forsíðunni og undir stikunni vinstra megin eru upplýsingar og leiðbeiningar sem auðvelda lesendum að átta sig á efninu. Með því að fara í uppflettiskrár um staðaheiti og mannanöfn er t.d. hægt að leita uppi þá staði sem voru vettvangur tilraunanna og sjá hvaða heimamenn lögðu verkefninu lið.
Danskur sjóliðsforingi, Carl Ryder að nafni, átti frumkvæði að verkefninu og fékk til liðs við sig kunnáttumenn í skógrækt. Skógfræðingurinn C. E. Flensborg bar hita og þunga af hinu praktíska starfi hérlendis og skrifaði flestar skýrslurnar. Hann var í tengslum við marga hérlenda áhrifamenn og virkjaði fjölda manns til starfa meðan verkefnið var í gangi. Verkefnið naut fjárstuðnings danskra stjórnvalda, Íslandsráðuneytisins í Kaupmannahöfn og síðar íslenska stjórnarráðsins. Formlega lauk verkefninu við gildistöku skógræktarlaganna frá 1907, en skýrslur af starfinu báru þó heitið Islands Skovsag mun lengur.
Helstu starfsstöðvar Islands Skovsag voru Þingvellir, Grund í Eyjafirði, Háls og Vaglir í Fnjóskadal, gróðrarstöðin við Rauðavatn og Hallormsstaður. Í skýrslunum er starfseminni á hverjum stað lýst ítarlega.